miðvikudagur, 23. apríl 2014

Með pólitík á heilanum.

 Frá því að ég man eftir mér þá hef ég haft áhuga á stjórnmálum og þá öllu heila klabbinu alveg sama hvort það séu sveitastjórnarmál, spilltir forsetar eða eitthvað þar á milli. Meðan vinir mínir gátu nefnt og lýst kostum allra bestu knattspyrnu stjarnanna þá gat ég talið upp ráðherra ríkisstjórnarinnar og helstu áhersluatriði allra flokka landsins. 
Ein af mínum fyrstu minningum er frá sveitastjórnarkosningunum 2002, ég var þá sex ára. Ég fór með pabba á kjörstað að kjósa, eins og alltaf, en mátti ekki koma með honum inn í kjörklefann þar sem ég gæti haft áhrif á atkvæði hans (og mögulega af því á Íslandi eru leynilegar kosningar). Síðan þá hef ég beðið eftir því að fá að kjósa sjálf og biðin langa endar loksins þann 31. maí aðeins 12 árum og 12 kosningum síðar.
      Líkt og sum börn hlýða á tónleika eða fara á íþróttaviðburði þar sem fyrirmyndirnar spila þá eru kosningar mínir íþróttaviðburðir. Ég hef lagt  það í vana minn, frá níu ára aldri eða síðan ég flutti í Hafnarfjörð, að heimsækja kosninga skrifstofur til að kynna mér helstu stefnu og baráttumál frambjóðenda og myndað mér síðan skoðun þegar ég hef kynnt mér málið og hverjum ég myndi gefa atkvæði mitt ef ég mætti kjósa. Sumir taka því illa þegar barn spyr þá spjörunum úr eða þykir það krúttlegt sérstaklega þegar barn er eins vel inn í málunum og ég var. Mér þykir og hefur alltaf þótt það vera dæmi um stórann galla fyrir frambjóðanda að kunna ekki að meta barn með áhuga á málunum af því ef þú getur ekki virt framtíð landsins þá áttu ekki mikið erindi við að stýra landinu. En flestir hafa ávallt tekið mér vel og aðstoðað mig við að kynda undir stjórnmála áhugann. Ég kynnti sjálf undir áhuga minn með því að vakna fyrir allar aldir til að horfa á kosingasjónvarpið og í seinni tíð að með því vaka alla nóttina til þess að fylgjast með nýustu tölum.
15 ára afmælinu mínu fagnaði ég svo í mínu fyrsta kosingapartíi á kosingaskrifstofu Vinstri Grænna  í Hafnarfirði 2010 og var það stór gjöf að fá að hlusta á símtölin sem mörkuðu upphaf bæjarstjórnarviðræðna í Hafnarfirði. Þetta sama kvöld tók ég líka þá ákvörðun að bjóða mig fram á lista VG árið 2014.

Síðustu ár hefur barnalýðræði aukist mikið í landinu og hef ég fengið að taka þátt í þeirri þróun og þykja mér það mikil forréttindi. Ég tók sæti í Ungmennaráði Hafnarfjarðar haustið 2010 fyrir grunnskólann minn og svo fyrir hönd fólks á aldrinum 16-18 ára seinna. Þegar ég tók sæti var ráðið í raun bara hópur unglinga sem höfðu mismikinn áhuga á stjórnmálum og hittust reglulega til þess að ræða málin. Nú fjórum árum síðar þá hefur ráðið talsverð áhrif í bænum, fundar reglulega með bæjaryfirvöldum og hefur oft mikið að segja um málefni sem varða unga fólkið í bænum. Auk þess hafa síðustu ár verið haldnar ráðstefnur á vegum UMFÍ sem bera heitið „Ungt fólk og lýðræði“ þar sem ungt fólk frá öllu landinu kemur saman og ræðir hvernig megi auka áhrif ungs fólks í stjórnsýslu landsins og leggur fram áskoranir til stjórnvalda. Ég hef verið þeirrar lukku aðnjótandi að taka tvisvar þátt í þessari árlegu ráðstefnu.

Ungmennaráðum landsins hefur fjölgað töluvert síðustu ár svo svona stjórnmálakrökkum eins og mér gefast fleirri tækifæri til að láta ljós okkar skína og vona ég að það verði til þess að slíkir krakkar komi meira fram á sjónarsviðið.

Málið er að  það þykir ekki kúl að hafa áhuga á stjórnmálum. Ég tók stjórnmálafræði  í menntaskóla í fyrra og því miður er bara boðið upp á einn áfanga. Í áfanganum voru um 30 nemendur og allir voru með kosingarétt fyrir utan einn, mig, og enginn talaði eða spurði spurninga nema einn, ég. Það er eitthvað sem er búið að planta inn í ungt fólk að lands og bæjarstjórnmál eigi að vera leiðinleg. Þetta sé bara fullt af fúlu liði með áhyggjuhrukkur að tuða í hvoru öðru daginn út og inn. Sem ég viðurkenni alveg að það lítur svolítið þannig út á yfirborðinu en um leið og grafið er aðeins dýpra þá sést að það býr mun meira að baki. Þetta er hreint og beint sorglegt af því margir hafa mikinn áhuga á skólapólitík en gera ekki samansem merki á milli hinnar „venjulegu“ pólitíkur sem er það nákvæmlega sama, bara önnur málefni.

Ég vona svo sannarlega að jafnaldrar mínir kjósi sem flestir í okkar fyrstu sveitastjórnarkosningum og viti að þau þurfi ekki að kjósa eins og mamma og pabbi eða amma og afi, og það er allt í lagi að skipta 1000 sinnum um skoðun áður en þú ákveður þig. Það er líka fínt að muna ef maður kýs vitlaust þá getur maður bara valið eitthvað annað næst. Það er nóg af molum í kassanum, bara smakka þangað til að þú finnur  þinn uppáhalds. Svo finnst manni kannski ekki sá sami bestur alla ævi. Uppskriftum á molum er nefnilega stundum breytt.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær grein hjá þér Vala