Eins og flestir vita þá er mikið um ólæst og óskrifandi fólk
hér og þá sérstaklega meðal kvenna. Að vísu er líka mikið um það að ungt fólk í
Sierra Leone sem er fætt á tímabilinu 1980 til 1995 sé einnig ómenntað þar sem
þetta eru þeir árgangar sem voru á grunnskólaaldri í borgarastyrjöldinni og mörg börn á þessum aldri voru einnig barnahermenn, svo það eru ýmsar ástæður fyrir því að
þessi börn fóru á mis við menntun.
Á þessum fimm vikum sem ég hef verið hér hef ég áttað mig á því að það að hafa aldrei farið í skóla og vera ólæs er mun fjölþættara en ég gerði mér
grein fyrir. Ég hafði aldrei hitt ólæsa manneskju fyrr en ég kom hingað,og ég hef aldrei pælt í því að ef þú kannt ekki að lesa og
skrifa og hefur aldrei farið í skóla þá er svo margt sem þú ekki veist eða
kannt sem okkur á Íslandi finnst svo sjálfsagt að fullorðinn einstaklingur viti
eða kunni. Þegar þú er ólæs þá kanntu ekki skrifa, ekki einu sinni nafnið þitt.
Þegar þú ert án menntunar þá veistu ekki að 23 er hærra en 11 en ekki heldur að
11° stiga hiti sé kaldara en 23° stiga hiti. Þú veist ekki opnunartíma verslana
og ef þú veist hann þá kanntu sennilega ekki ekki endilega á klukku eða þá hvað það séu margar
mínútur í klukkustund. Þú hefur aldrei heyrt um þyngdarafl hvað þá að það sé öðruvísi á öðrum plánetum.
Það er sérstök lífsreynsla fyrir mig að fá að búa með tveimur
einstaklingum sem eru enn að læra að lesa og skrifa, sérstaklega vegna þess að annað
þeirra er ungur maður, jafn gamall mér. Sama vor og ég lauk mínu
grunnskólanámi þá hóf hann sitt nám. Hann sagði mér um daginn hvað honum þætti
merkilegt hvað ég væri klár og vissi mikið um allt mögulegt þótt ég væri bara
18 ára og ekki byrjuð í háskóla. Svo spurði hann hvort allir á Íslandi fengju
að fara í skóla líka fátæka fólkið. Þegar ég sagði honum að á Íslandi færu
allir í skóla í 10 ár og þar væru kenndar um 20 námsgreinar og við myndum læra þrjú tungumál, ýmiskonar
íþróttagreinar, stærðfræði, nátturufræði, bæði líffræði og eðlisfræði, sögu,
landafræði, þrennskonar heimilsfræði (smíði,hannyrðir og heimilsfræði),
tónlist, landafræði, trúarbragðafræði, ritvinnslu, myndlist og svo lærðu allir
að synda. Eftir þessa upptalningu mína þá veit ég ekki hvort okkar var meira hissa,
Hann á hinu fjölbreytilega námsframboði eða ég að uppgötva fyrir alvöru hvað það
felst margt í íslensku grunnskólaprófi.
Ég hef alltaf kunnað að meta tækifæri min til menntunar, sem
stelpa, og vitað hvað ég er heppin að alast upp í landi sem átti fyrsta
kvenforseta heims. En ég er að finna það mjög sterkt hér hvað ég er rosalega
heppin og upplifa hina miklu klisju sem maður hefur heyrt svo oft að "menntun sé
máttur".
Það er líka merkilegt að sjá hvað samfélagið hér er stillt
inn á lágt menntunarstig, til dæmis eru öll verð hér í heilum þúsundum þá stöku
sinnum sem þau eru í heilum hundruðum þá er það 500 og er þetta gert svo auðvelt sé að leggja saman. Þó nægir
þetta ekki öllum og var mamma að kaupa ananas á dögunum hjá ávaxtasala sem
sagði að einn kostaði sex þúsund en tveir 15 þúsund. Við næstum öll skilti hér
þá eru einnig myndir sem útskrýra hvað textinn segir.
Það sem kemur mér þó mest að óvart er hvað háskólamenntun
skilar þér oft ekkert frekar
atvinnutækifærum þar sem ekki er mikið um störf í boði í þeim háskólagreinum sem
eru í boði í skólum hér. Því á sumt fólk erfitt með að sjá að menntun sé
einhver sérstakur máttur.
Pabbi
tók viðtöl á dögum við foreldra grunnskólabarna hér í Kenema. Nokkrir
foreldranna voru ólæs og óskrifandi. Þessir foreldrar geta því ekki vitað með
vissu hvernig börnum þeirra gengur í skóla og verða því að treysta á að börnin séu
að fá viðunnandi menntun.
Mér finnst það rosalega skrýtin tilhugsun að hafa ekki foreldra mína til að styðja
mig og hjálpa í gegnum skólann og geta ekki fengið hjálp frá þeim með ýmis verkefni af því þau gætu ekki lesið það eða skilið. Nógu erfitt þótti mér að þurfa að lesa og þýða
fyrir foreldra mína hollensku nú í haust og þó er ég 18 ára. Hvernig skildi það
vera að vera 8 ára og þurfa lesa fyrir mömmu sína því hún kann það ekki sjálf?
Menntun er frábær gjöf sem allir ættu að læra meta finnst mér og það var hann Hassan sem minnti mig á það um daginn þegar hann sagði við mig um daginn " I find it so fun to look at beautiful words and even more fun that now I can read them to".